Ísland hefur lengi verið einsleitt samfélag, bæði menningarlega og útlitslega. En samfélagið hefur breyst töluvert síðustu ár með auknum fólksflutningum til Íslands og einnig auknu flæði Íslendinga um heiminn. Í dag eru eru einstaklingar af erlendum uppruna á Íslandi um 25% mannfjöldans, þ.e.a.s einn af hverjum fjórum á Íslandi hefur erlendar rætur.

Fordómar í fjölmenningarsamfélagi

Rannsóknir sýna að fólk af erlendum uppruna stendur höllum fæti í íslensku samfélagi. Það mætir ýmsum hindrunum og fordómum vegna uppruna síns, menningareinkenna eða kynþáttar.

Þessi mismunun skapar hindranir innan skólakerfisins, á atvinnumarkaði og í menningarlífi sem leiðir til útilokunar og ójöfnuðarr í samfélaginu.

Fræðsla og aukin sýnileiki

Mannflóran býður uppá fræðsluerindi, vinnustofur og ráðgjöf fyrir skóla, stofnanir og fyrirtæki sem vilja kynna sér birtingarmyndir fordóma og rasisma, í þeim tilgangi að stuðla að jafnara og betra samfélagi.

Einnig framleiðir Mannflóran efni fyrir útvarp og sjónvarp, líkt og sjónvarpsþættina Mannflóran sem voru sýndir á RÚV um vorið 2023. Eitt helsta markmið Mannflórunnar er að vinna gegn fordómum með því að auka fjölbreyttar fyrirmyndir í íslensku dægurefni - sýnileiki skiptir máli.